Saga SBU
Félag bókasafnsfræðinga var stofnað árið 1973 og starfaði til 1999. Það var bæði fagfélag og stéttarfélag, og innan þess starfaði kjaradeild. Þann 8. apríl 1999 sameinaðist félagið Bókavarðafélagi Íslands og var þá tekin sú ákvörðun að gera kjaradeildina að sérstöku og sjálfstæðu stéttarfélagi; SBU - stéttarfélagi bókasafns- og upplýsingafræðinga. Ásdís Hafstað varð fyrsti formaður. Í félaginu sameinuðust háskólamenntaðir bókasafns- og upplýsingafræðingar í eitt stéttarfélag sem nú var opið félagsmönnum sem störfuðu á almennum markaði, ólíkt því sem kjaradeild Félags bókasafnsfræðinga hafði verið.
Fagfélög fólks sem starfaði við bókasöfn og upplýsingaþjónustu sameinuðust í félaginu Upplýsingu sem tók til starfa árið 2000. Stjórn SBU vann með Upplýsingu að ímyndarmálum stéttarinnar 2011-2012 og gerði tillögu um að breyta nafni stéttarfélagsins í Stéttarfélag upplýsingafræðinga. Sú tillaga var felld og greinilegt að bókasafnsfólk taldi sig hjá garði sett ef nafninu yrði breytt. Skömmu síðar var heiti fagsins í Háskóla Íslands breytt í upplýsingafræði. Það er núna einungis kennt á meistarastigi.
SBU hefur frá upphafi verið aðili að BHM - bandalagi háskólamanna og verið til húsa á sama stað, fyrst í Lágmúla og svo í Borgartúni í Reykjavík. Félagið á og rekur þar sameiginlega þjónustuskrifstofu með fjórum öðrum stéttarfélögum og nær þannig, þrátt fyrir smæð sína, að halda úti öflugri starfsemi fyrir sitt félagsfólk. Sameiginlega þjónustuskrifstofan nefnist FHS – félög háskólamenntaðra sérfræðinga.
Við stofnun voru um 100 félagar í SBU en félagið hefur vaxið talsvert síðan þá og eru félagar nú um 260 talsins.