Beint í efni

Lög SBU

1. gr. Nafn

Félagið heitir Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga.Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík. Félagssvæði tekur til alls landsins.

2. gr. Hlutverk

Hlutverk félagsins er:

· að standa vörð um kjaraleg réttindi félagsmanna

· að semja um kaup og kjör félagsmanna

· að stuðla að samstarfi við innlend og erlend stéttarfélög

· að fræða félagsmenn um réttindi þeirra og skyldur

3. gr. Aðild

Félagar geta orðið:

Allir launþegar sem lokið hafa 180 eininga (ECTS) háskólaprófi, með að minnsta kosti 120 einingum í bókasafns- og upplýsingafræði eða sambærilegu prófi.

Þau sem hafa lokið meistaragráðu í upplýsingafræði ofan á aðra háskólagráðu eða sambærilegu prófi.

Þau sem hafa lokið diplómanámi í upplýsingafræði í Háskóla Íslands ofan á aðra háskólagráðu eða sambærilegu prófi.

Þau sem hafa lokið að minnsta kosti 30 einingum í námi til meistaragráðu í upplýsingafræði ofan á aðra háskólagráðu. Sú aðild fellur niður ef umsækjandi hefur ekki lokið því námi innan fjögurra ára frá því aðildarumsókn er samþykkt.

4. gr. Aðalfundur

Aðalfundur hefur æðsta vald í málum félagsins. Hann skal halda í mars eða apríl ár hvert. Aðalfund skal boða öllum félagsmönnum með 14 daga fyrirvara. Aðalfundur er löglegur ef löglega er til hans boðað.

Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram rafrænt í fjarfundi eða sem bæði stað- og fjarfundur og skal þess þá getið í fundarboði. Ef aðalfundur er haldinn að einhverju leyti sem fjarfundur, fara atkvæðagreiðslur og samþykktir á þeim fundi fram rafrænt

Á aðalfundi skulu eftirfarandi mál tekin fyrir:

1. skýrsla stjórnar

2. reikningar félagsins

3. lagabreytingar

4. fjárhagsáætlun fyrir næsta ár og ákvörðun um félagsgjöld og önnur gjöld

5. kosning stjórnar sbr. 5.gr.

6. kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

7. kosning í nefndir og til annarra trúnaðarstarfa innan félagsins

8. önnur mál

5. gr. Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum; formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda sem kosnir skulu á aðalfundi. Auk þess skal kjósa tvo varamenn. Formann skal kjósa sérstaklega. Á fyrsta fundi eftir aðalfund skiptir stjórnin að öðru leyti með sér verkum.

Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Annað árið skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og einn varamann en hitt árið tvo stjórnarmenn og einn varamann. Þurfi að kalla varamann í stjórn, skal fyrst

kalla þann til sem lengur hefur setið.

6. gr. Störf stjórnar

Formaður boðar til stjórnarfunda og stýrir þeim. Fundi skal halda eins oft og þörf krefur. Einnig skal boða til fundar ef a.m.k. einn stjórnarmaður æskir þess og skal hann haldinn innan viku. Stjórnin fer með æðsta vald í öllum málefnum félagsins milli aðalfunda og fylgir eftir lögum félagsins og er málsvari þess útávið. Stjórnin gætir þess að lögum og samþykktum félagsins sé framfylgt og að kjarasamningar þess séu haldnir.

6a. gr. Styrkir

Félagið styrkir verkefni sem stuðla að framgangi stéttarinnar, eitt verkefni á ári, allt að 200.000 krónum. Stjórn auglýsir eftir styrkbeiðnum og úthlutar styrk.

7. gr. Samninganefndir

Stjórn félagsins er jafnframt aðalsamninganefnd þess og er formaður jafnframt formaður hennar nema stjórnin ákveði annað. Heimilt er að kveða aðra félagsmenn til setu í samninganefnd ef þurfa þykir.

Aðalsamninganefndin skipar sérstakar samninganefndir gagnvart einstökum vinnuveitendum, ef starfsmenn þess vinnuveitenda kjósa svo.Hlutverk samninganefnda er að annast samningsgerð fyrir viðkomandi hópa félagsmanna gagnvart vinnuveitendum. Samninganefnd skal bera nýjan kjarasamning undir atkvæðagreiðslu viðkomandi félagsmanna til samþykktar eða synjunar.

Stjórn skipar samstarfsnefndir við opinbera vinnuveitendur samkvæmt 11.kafla kjarasamnings félagsins.

8. gr. Fjármál

Félagsmenn skulu greiða félagsgjald til félagsins er nemi ákveðnu hlutfalli af föstum launum og innheimtist það mánaðarlega hjá vinnuveitanda.

Aðalfundur ákveður félagsgjöld til eins árs í senn. Heimilt er að ákveða sérstakt samningsgjald fyrir félaga með aukaaðild sem samið er fyrir.

Þá innheimtir félagið einnig samningagjöld af þeim sem taka laun samkvæmt kjarasamningi félagsins sbr. 2.mgr.7.gr. laga nr. 94/1986 eða 2.mgr.6.gr. laga nr. 55/1980.

Stjórnin gætir eigna félagsins og ber ábyrgð á vörslu þeirra. Reikningsár er almanaksárið.

Aðalfundur kýs tvo skoðunarmenn reikninga og skulu þeir endurskoða alla sjóði félagsins. Bjóði engir skoðunarmenn sig fram fyrir aðalfund sér stjórn um að skipa þá.

9. gr. Kjaradeilusjóður

Félagið starfrækir kjaradeilusjóð. Stjórn SBU fer með málefni sjóðsins og starfar hann skv. reglum er aðalfundur setur.

10. gr. Vísindasjóður

Félagið starfrækir vísindasjóð. Stjórn SBU fer með málefni sjóðsins og starfar hann skv. kjarasamningi og þeim reglum er aðalfundur setur.

11. gr. Trúnaðarmenn

Stjórnin skal beita sér fyrir því að trúnaðarmenn séu kjörnir sbr. 5. kafla laga nr. 94/1986 og 9.-12.gr. laga nr. 80/1938 og boða þá á fund a.m.k. einu sinni á ári.

12. gr. Trúnaðarmannaráð

Stjórn og trúnaðarmenn félagsins mynda trúnaðarmannaráð Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga. Hlutverk þess er að vera samninganefnd félagsins til aðstoðar við undirbúning kröfugerðar og vera ráðgefandi í kjaraviðræðum félagsins. Auk þess skal trúnaðarmannaráð fjalla um önnur kjaramál, sem vísað er til umsagnar þess.

Stjórn félagsins boðar til trúnaðarmannaráðsfundar. Skylt er að boða til fundar ef a.m.k. þrír trúnaðarmenn óska þess skriflega og tilgreina fundarefni.

13. gr. Almennir félagsfundir

Almenna félagsfundi skal halda að frumkvæði stjórnarinnar. Skylt er að boða til almenns félagsfundar ef 10 félagsmenn eða fleiri krefjast þess skriflega og tilgreina fundarefni.

Almenna félagsfundi skal auglýsa rækilega á viðeigandi vettvangi eða boða í gegnum trúnaðarmannakerfi.

14. gr. Boðun verkfalla og samþykkt kjarasamninga

Stjórn félagsins ákveður hvenær leitað skuli eftir samþykki félagsmanna til verkfallsboðunar. Um framkvæmdina að öðru leyti skal farið eftir ákvæðum 3.kafla laga nr. 94/1986 eða laga nr. 80/1938 eftir því sem við á. Samninganefnd félagsins undirritar kjarasamning með fyrirvara um samþykki þeirra félagsmanna sem í hlut eiga. Samninganefnd skal kynna félagsmönnum kjarasamning og bera hann undir skriflega atkvæðagreiðslu þeirra sem starfa hjá þeim vinnuveitanda eða vinnuveitendum sem samningurinn tekur til.

15. gr. Úrsögn

Úrsögn úr félaginu skal vera skrifleg og telst hlutaðeigandi genginn úr félaginu þrem mánuðum eftir að úrsögn hefur borist stjórninni. Úrsögn hefur þó ekki áhrif á greiðsluskyldu skv. 3.mgr. 8 gr. laga þessara.

Félagsaðild lýkur einnig þegar einstaklingur hættir að taka kjör sín samkvæmt samningi félagsins.

Stjórn félagsins getur vikið félaga úr félaginu ef hann hefur misnotað nafn þess og unnið gegn hagsmunum þess. Viðkomandi getur skotið málinu til félagsfundar og skal félagsfundur úrskurða í málinu innan fjögurra vikna frá brottvikningu.

16. gr. Lagabreytingar

Lögum þessum má einungis breyta á aðalfundi og þarf 2/3 hluta greiddra atkvæða til þess að breytingar öðlist gildi.

Tillögur til lagabreytinga skulu hafa borist stjórn félagsins eigi síðar en 15.febrúar ár hvert.

Lög þessi voru samþykkt á framhaldsaðalfundi fyrir árið 1998 sem haldinn var 8.apríl 1999 og öðlast þau þegar gildi. Félagið tekur strax til starfa samkvæmt nýjum lögum og nýju heiti á aðalfundi sem haldinn er 8.apríl 1999.

Bráðabirgðaákvæði og gerðar breytingar:

Á fyrsta aðalfundi 1999 skal kjósa 5 manna stjórn, formann sérstaklega til eins árs og tvo stjórnarmenn til eins árs og tvo til tveggja ára og einn varamann til tveggja ára.

(Samþykkt á aðalfundi Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga 8.apríl 2002)