Lög SBU
I. Félagið
1. grein. Nafn félagsins
Heiti félagsins er Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga, skammstafað SBU. Heimili þess og varnarþing er í Reykjavík.
2. grein. Hlutverk og tilgangur
SBU er stéttarfélag og fer með umboð félagsfólks í kjara- og réttindamálum gagnvart launagreiðendum og öðrum.
Tilgangur SBU er að:
• Vinna að bættum kjörum félagsfólks og gæta hagsmuna þess í kjara- og réttindamálum.
• Standa vörð um réttindi félagsfólks á vinnumarkaði, upplýsa þau um réttindi þeirra og skyldur og koma fram fyrir þeirra hönd eftir atvikum.
• Stuðla að öryggi félagsfólks á vinnustað í samráði við þar til bærar stofnanir
• Efla félagsfólk á vinnumarkaði.
• Rækta samstarf við innlend og erlend stéttarfélög og stofnanir sem fjalla um málefni tengd hagsmunum félagsfólks.
3. grein. Heildarsamtök
SBU á aðild að Bandalagi háskólamanna – BHM.
II. Félagsaðild og félagsgjöld
4. grein. Félagsaðild
Félagar geta þau orðið sem:
• Lokið hafa 180 eininga (ECTS) háskólaprófi, með að minnsta kosti 120 einingum í bókasafns- og upplýsingafræði eða sambærilegu prófi.
• Lokið hafa meistaragráðu í upplýsingafræði.
• Lokið hafa diplómanámi í upplýsingafræði í Háskóla Íslands ofan á aðra háskólagráðu eða sambærilegu prófi.
Félagi sem greiðir félagsgjald telst fullgildur félagi og hefur kjörgengi til embætta og atkvæðisrétt við afgreiðslu mála innan félagsins.
Háskólanemar sem eru í viðurkenndu háskólanámi í upplýsingafræði eða sambærilegu námi geta orðið félagar með takmörkuðum réttindum og skyldum. Nemaaðild veitir rétt til þátttöku í starfi SBU, málfrelsi og tillögurétt á félagsfundum en þó ekki atkvæðisrétt eða kjörgengi. Þau sem eru með nemaaðild og fá ekki greidd laun, greiða ekki félagsgjöld. Greiði háskólanemar félagsgjald af launum á námstímanum fá þeir fulla aðild að félagi og sjóðum tengdum því.
5. grein. Félagsgjöld
Félagsgjöld skulu ákveðin á aðalfundi og er félagsfólki skylt að greiða þau. Skriflegar tillögur félagsfólks um breytingar á félagsgjöldum skulu berast stjórn eigi síðar en þremur sólarhringum fyrir aðalfund og skulu birtar á vef félagsins með endanlegri dagskrá.
6. grein. Aðildarumsókn
Umsókn um félagsaðild skal vera skrifleg og með henni skal fylgja staðfesting á námslokum frá viðurkenndum háskóla. Sé aðildarumsókn samþykkt öðlast hún gildi þegar félagsgjöld hafa verið greidd. Stjórn getur falið skrifstofu félagsins að afgreiða umsóknir.
7. grein. Úrsögn
Félagsaðild fellur niður ef greiðslur félagsgjalda hætta að berast félaginu. Hætti greiðslur að berast eftir að vinnustöðvun hefur verið boðuð hjá launagreiðanda viðkomandi félaga telst félagsaðild hans þó engu að síður virk þar til vinnustöðvun hefur verið aflýst.
Stjórn getur vikið félaga úr félaginu ef hann hefur misnotað nafn þess eða unnið gegn hagsmunum þess með öðrum hætti. Viðkomandi getur þá skotið málinu til félagsfundar sem skal úrskurða í málinu innan fjögurra vikna frá brottvikningu.
III. Aðalfundur
8. grein. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta vald í málefnum félagsins.
Aðalfund skal halda fyrir lok apríl ár hvert og telst löglegur ef löglega er til hans boðað.
Stjórn getur ákveðið að aðalfundur fari fram sem staðfundur, fjarfundur eða sem bæði stað- og fjarfundur og skal þess þá getið í fundarboði. Ef aðalfundur er haldinn að einhverju leyti sem fjarfundur, skulu atkvæðagreiðslur og samþykktir fara fram rafrænt.
Boðað skal til aðalfundar með minnst 14 daga fyrirvara á vef félagsins og með tölvupósti til félagsfólks. Á fundinum ræður einfaldur meirihluti í öllum málum nema þegar breyta á lögum félagsins, sbr. 20. grein. Atkvæðisrétt á aðalfundum hafa fullgildir félagar í SBU.
Á dagskrá aðalfundar skulu vera eftirfarandi liðir:
1. Kosning fundarstjóra og fundarritara
2. Skýrsla stjórnar kynnt
3. Endurskoðaðir reikningar félagsins lagðir fram til samþykktar
4. Ákvörðun um félagsgjöld, sbr. 5. grein
5. Lagabreytingar, sbr. 20. grein
6. Kosning formanns, sbr. 9. grein
7. Kosning stjórnar og varastjórnar, sbr. 9. grein
8. Önnur mál
Stjórn er heimilt að bæta við dagskrárliðum.
9. grein. Framboð og kosning til embætta
Tilkynna skal framboð til embættis formanns skriflega til stjórnar eigi síðar en viku fyrir aðalfund. Um önnur embætti gildir að framboð skal tilkynnt skriflega til stjórnar a.m.k. þremur dögum fyrir aðalfund. Berist ekki framboð í allar trúnaðarstöður í aðdraganda aðalfundar má auglýsa eftir framboðum á fundinum.
Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Annað árið skal kjósa formann, tvo stjórnarmenn og einn varamann en hitt árið tvo stjórnarmenn og einn varamann. Þurfi að kalla varamann í stjórn, skal fyrst kalla þann til sem lengur hefur setið.
Enginn skal sitja lengur en tíu ár samfellt sem aðalfulltrúi í stjórn. Fyrri störf formanns í stjórn skulu þó undanskilin.
10. grein. Aukaaðalfundir
Stjórn er heimilt að boða til aukaaðalfunda.
IV. Stjórn og félagsstarf
11. grein. Stjórn
Stjórn félagsins er kosin á aðalfundi og skal skipuð fimm fullgildum félögum: formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda og tveimur til vara. Formann skal kjósa sérstaklega en að öðru leyti skiptir stjórn með sér verkum og setur sér starfsreglur. Formaður getur boðað varafulltrúa til þátttöku í starfi stjórnar og hefur hann þá málfrelsi og tillögurétt en ekki atkvæðisrétt nema ef aðalfulltrúi forfallast.
Stjórn fer með æðsta vald í málefnum félagsins milli aðalfunda og er málsvari þess. Hún gætir þess að lögum og samþykktum félagsins sé framfylgt, fer með umboð félagsins til kjarasamninga og hefur eftirlit með því að þeir séu virtir.
Formaður er talsmaður félagsins. Formaður boðar stjórnarfundi með dagskrá eins oft og þörf krefur og stýrir þeim. Boða skal fund ef a.m.k. einn stjórnarfulltrúi óskar þess og skal hann þá haldinn innan viku. Fundir stjórnar eru lögmætir ef meirihluti fulltrúa mætir og ræður meirihluti greiddra atkvæða niðurstöðu mála. Falli atkvæði á jöfnu skal atkvæði formanns ráða.
Stjórn ber ábyrgð á fjármálum og rekstri félagsins. Ákvarðanir stjórnar skulu bókaðar í fundargerð sem stjórn undirritar.
Stjórn er heimilt að standa fyrir rafrænum kosningum, t.d. atkvæðagreiðslum um kjarasamninga.
12. grein. Trúnaðarmenn
Stjórn skal beita sér fyrir því að trúnaðarmenn séu kjörnir á vinnustöðum, sbr. 5. kafla laga um kjarasamninga opinberra starfsmanna nr. 94/1986 og 9.–12. gr. laga um stéttarfélög og vinnudeilur nr. 80/1938, og boða þá á fund a.m.k. einu sinni á ári.
13. grein. Félagsfundir
Stjórn boðar almennan félagsfund þegar tilefni gefst til, staðfund, fjarfund eða blöndu af þessu tvennu.
Almenna félagsfundi skal halda svo oft sem þurfa þykir og alltaf ef 25 fullgildra félaga krefjast þess. Félagsfundir skulu boðaðir með minnst 3 daga fyrirvara á vef félagsins og með tölvupósti til félagsfólks. Efni fundarins skal fylgja fundarboði.
Á félagsfundum ræður einfaldur meirihluti í öllum málum. Atkvæðisrétt á félagsfundum hafa fullgildir félagar í SBU.
V. Fjármál og rekstur félagsins
14. grein. Ábyrgð stjórnar
Stjórn félagsins ber ábyrgð á fjármálum og rekstri félagsins. Ákvarðanir um óregluleg og meiriháttar útgjöld og fjárhagslegar skuldbindingar fyrir félagið skulu teknar til formlegrar afgreiðslu á stjórnarfundum. Stjórn skal setja félaginu fjárfestingarstefnu.
15. grein. Skrifstofa félagsins
Stjórn er heimilt að gera samning um rekstur skrifstofu til að sinna þjónustu við félagsfólk í samstarfi við önnur félög innan BHM. Formaður félagsins skal sitja í stjórn skrifstofunnar og fara þar með umboð stjórnar.
16. grein. Ársreikningar
Fjárhagsár ársreikninga skal miðast við almanaksár og skal stjórn fela löggiltum endurskoðanda, sem er óháður félaginu, að endurskoða reikninga þess.
Endurskoðaða ársreikninga skal leggja fram á aðalfundi áritaða af endurskoðanda, stjórn og framkvæmdastjóra félagsins.
VI. Kjarasamningar og meðferð þeirra
17. grein. Samninganefndir
Stjórn félagsins er jafnframt aðalsamninganefnd þess og er formaður jafnframt formaður hennar nema stjórn ákveði annað. Stjórn er heimilt að kveðja annað fólk til setu í samninganefndum.
Verkefni samninganefnda eru að:
• Undirbúa og samþykkja kröfugerð félagsins vegna kjarasamningsviðræðna
• Taka ákvörðun um það hvort leitað skuli eftir samþykki félagsfólks til verkfallsboðunar
• Vera stjórn félagsins til ráðgjafar um kjaraatriði og túlkun kjarasamninga.
Verði ágreiningur í samninganefnd um tiltekið mál skal greiða atkvæði um það og ræður meirihluti atkvæða úrslitum. Falli atkvæði jöfn ræður atkvæði formanns samninganefndar.
Samninganefndir hafa umboð til að gera kjarasamninga í nafni félagsins með fyrirvara um samþykki félagsfólks sem á aðild að viðkomandi samningi.
18. grein. Atkvæðagreiðsla um kjarasamninga
Stjórn skal kynna gerðan kjarasamning því félagsfólki sem samningurinn nær til og standa fyrir atkvæðagreiðslu um hann. Þá skal félagsfólk velja á milli þess að samþykkja eða hafna kjarasamningi og ræður meirihluti atkvæða niðurstöðunni. Rafræn atkvæðagreiðsla skal vera jafngild atkvæðagreiðslu á félagsfundi.
19. grein. Boðun verkfalla
Tillaga um boðun verkfalls skal borin undir atkvæði félagsfólks sem málið varðar og ræður meirihluti greiddra atkvæða úrslitum. Stjórn skal setja verklagsreglur um framkvæmd atkvæðagreiðslu um verkföll.
VII. Lagabreytingar
20. grein. Lagabreytingar
Lögum þessum má aðeins breyta með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi.
Tillögur stjórnar að lagabreytingum skulu kynntar í fundarboði með að minnsta kosti 14 daga fyrirvara.
Skriflegar tillögur félagsfólks um lagabreytingar skulu hafa borist stjórn eigi síðar en sjö dögum fyrir aðalfund og skulu birtar á vefsíðu félagsins með endanlegri dagskrá.
VIII. Slit félagsins
21. grein. Félagsslit
Félaginu verður aðeins slitið með samþykki 2/3 greiddra atkvæða á aðalfundi og skal þá skipuð félagsslitanefnd sem tekur ákvörðun og sér um ráðstöfun eigna félagsins.
IX. Sjóðir félagsins
22. gr. Kjaradeilusjóður
Félagið starfrækir kjaradeilusjóð. Stjórn SBU fer með málefni sjóðsins og starfar hann skv. reglum er aðalfundur setur.
23. gr. Vísindasjóður
Félagið starfrækir vísindasjóð. Stjórn SBU fer með málefni sjóðsins og starfar hann skv. kjarasamningi og þeim reglum er aðalfundur setur.
Samþykkt á aðalfundi Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga þann 3. mars 2023
(breytingar á 3. grein og 5. grein samþykktar á aðalfundi Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga 19. mars 2009)
(breytingar á 4. gr. samþykktar á aðalfundi 2. mars 2012)
(breytingar á 6.gr. samþykktar á aðalfundi 1. mars 2013)
(breytingar á 6., 8., 9. og 10. gr. og ný grein 6a. samþykktar á aðalfundi 7. apríl 2017)
(breytingar á 5. gr. samþykktar á aðalfundi 12. apríl 2019)
(breytingar á 4. gr. samþykktar á aðalfundi 16. apríl 2021)
(breytingar á 3. gr. samþykktar á aðalfundi 8. apríl 2022)
(heildarendurskoðun á lögum félagsins 3. mars 2023)