Beint í efni

Sameining stéttarfélaga til skoðunar

Þrjú aðildarfélög BHM hefja viðræður um sameiningu félaganna í nýtt öflugt stéttarfélag.

Aðalfundur SBU 2023 samþykkti tillögu þess efnis að hefja viðræður við önnur stéttarfélög háskólamenntaðs fólks um að sameinast í nýtt og öflugt stéttarfélag sérfræðinga. Markmið viðræðnanna væri að kanna kosti þess að skapa saman stéttarfélag sem byggir á traustum og fjölbreyttum grunni og er í stakk búið til að takast á við áskoranir á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Nú hefur SBU hafið viðræður við tvö aðildarfélög innan BHM, Félag íslenskra félagsvísindamanna og Fræðagarð, að byggja upp nýtt öflugt stéttarfélag fyrir 21. öldina, stéttarfélag sérfræðinga sem mætir breyttum kröfum á vinnumarkaði. Stjórnir félaganna horfa sérstaklega til reynslu systursamtaka sinna á Norðurlöndunum þar sem rótgróin stéttarfélög hafa sameinast í kröftugar einingar.

Sameiningaviðræðurnar hófust formlega þann 30. mars síðastliðinn þegar stjórnir félaganna þriggja samþykktu verkáætlun og skipulag fyrir starfið framundan. Settir hafa verið á laggirnar vinnuhópar um helstu áskoranir og tækifæri sem felast í þessari vegferð. Stjórnir félaganna funda næst saman þann 22. apríl og verður þá freistað að ganga frá breiðu línunum í viðræðunum.

SBU leggur mikla áherslu á að starfið framundan sé gagnsætt og að félagsfólki gefist tækifæri að taka þátt í stefnumótun nýs félags. Gert er ráð fyrir að haldið verði opið stefnumótunarþing á haustmánuðum þar sem félagsfólki félaganna þriggja er boðið að móta saman stefnu og gildi hins nýja félags.

"Við í stjórn SBU og okkar öfluga starfsfólk höfum hafið áhugaverða vegferð. Við fengum umboð félagsfólks okkar til að skoða það að stofna saman nýtt og öflugt stéttarfélag. Við sjáum þetta sem frábært tækifæri til að efla stöðu okkar fólks í sífellt meira krefjandi kjaraumhverfi framtíðarinnar. Við í stjórn hlökkum til að taka þátt í þessu spennandi verkefni og við finnum að áhugi félagsfólks okkar á þessu er mikill og jákvæður sem gefur okkur kraft í vinnuna."

Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar, formaður SBU.
F.v.t.h. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Fræðagarðs, Kristmundur Þór Ólafsson formaður FÍF og Kristjana Mjöll Hjörvar Jónsdóttir formaður SBU.