Beint í efni

Aukaaðalfundur SBU afstaðinn

Tillaga um sameiningu í Visku samþykkt

Aukaðalfundur SBU var haldinn síðdegis í gær, þar sem fundargestir samþykktu samhljóða tillögu stjórnar að SBU sameinist í stéttarfélagið Visku.

Á þessu ári hefur stjórn SBU átt í formlegum viðræðum við systurfélög sín í BHM, Félag íslenskra félagsvísindamanna og Fræðagarð, um að sameinast í nýtt og öflugt stéttarfélag. FÍF og Fræðagarður samþykktu tillögu um sameiningu fyrr í vikunni, og nú bætist SBU í hópinn sem einn stofnfélagi Visku. Viska – stéttarfélag er stærsta aðildarfélag BHM og eitt stærsta stéttarfélag sérfræðinga á Íslandi.

Mikilvægt er að taka það fram að við sameiningu verður tryggt að öll réttindi félagsfólks SBU flytjist yfir til Visku eins og um samfellda félagsaðild væri að ræða. Réttindi í sjóðum BHM haldast óbreytt hjá félagsfólki. Félagsgjöld í Visku eru aðeins lægri en hjá SBU.

Viska tekur formlega til starfa fljótlega á nýju ári. Á næstu vikum og mánuðum fær félagsfólk að heyra meira um Visku – stéttarfélag og þær spennandi nýjungar sem stofnun félagsins hefur í för með sér.