Beint í efni

Aukaaðalfundur SBU

Tilefni fundarins er tillaga stjórnar um að SBU sameinist í stéttarfélagið Visku

Stjórn Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) boðar til aukaaðalfundar fimmtudaginn 2. nóvember kl. 17:00, í Borgartúni 6 á 4. hæð þar sem aðgengi er fyrir öll. Fundurinn er bæði stað- og fjarfundur.

Tilefni fundarins er að leggja til afgreiðslu aðalfundartillögu þess efnis að sameinast í stéttarfélagið Visku.

Tillaga stjórnar

Stjórn SBU leggur til við aðalfund SBU að sameinast í stéttarfélagið Visku, á grundvelli samkomulags stjórna SBU, FÍF og Fræðagarðs frá 16. október 2023.

Á aðalfundi SBU 3. mars 2023 var samþykkt tillaga þess efnis að hefja viðræður við önnur stéttarfélög háskólamenntaðs fólks um að sameinast í nýtt og öflugt stéttarfélag sérfræðinga. Þann 30. mars síðastliðinn hóf stjórn SBU formlegar viðræður við Félag íslenskra félagsvísindamanna (FÍF) og Fræðagarð um sameiningu félaganna í stórt og öflugt stéttarfélag sem byggir á traustum og fjölbreyttum grunni og er í stakk búið til að takast á við áskoranir á vinnumarkaði framtíðarinnar.

Viðræðurnar hafa gengið vonum framar og 16. október 2023 skrifuðu formenn SBU, FÍF og Fræðagarðs undir samkomulag þess efnis að sameina þessi þrjú stéttarfélög í eitt stórt stéttarfélag sem hefur fengið nafnið Viska. Viska – stéttarfélag verður stærsta aðildarfélag BHM og eitt stærsta stéttarfélag sérfræðinga á Íslandi.

F.v. Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar formaður SBU, Kristmundur Þór Ólafsson formaður FÍF og Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir formaður Fræðagarðs við undirritun samkomulags um sameiningu stéttarfélaganna þriggja.

Stjórn SBU leggur til við aðalfund SBU að sameinast í stéttarfélagið Visku. Það ógildir ekki samþykki aukaaðalfundar félagsins á tillögunni, þó að tillaga um sameiningu verði felld á aukaaðalfundi FÍF. Verði sameiningin samþykkt, verður SBU afskráð úr fyrirtækjaskrá.

Við sameiningu verður tryggt að öll réttindi félagsfólks SBU flytjist yfir til Visku eins og um samfellda félagsaðild væri að ræða. Réttindi í sjóðum BHM haldast óbreytt hjá félagsfólki. Félagsgjöld í Visku eru aðeins lægri en hjá SBU. Fullt samræmi verður milli réttinda alls félagsfólks í Visku.

Ársreikninga SBU, FÍF og Fræðagarðs síðustu þriggja ára er hægt að finna hér.

Dagskrá aðalfundar er eftirfarandi:

1. Fundur settur.

a. Skipaðir fundarstjóri og fundarritari

2. Tillaga stjórnar:

a. Stjórn SBU leggur til við aðalfund SBU að sameinast í stéttarfélagið Visku, á grundvelli samkomulags stjórna SBU, FÍF og Fræðagarðs frá 16. október 2023.

3. Önnur mál

Félagsfólk sem hyggst mæta á fundinn er beðið um að skrá sig.