Beint í efni

Ályktun stjórnar SBU um rýmkun á skráningarheimild Gegnis

Landskerfi bókasafna rýmkar kröfurnar til að fá skráningarheimild í Gegni

Upplýsingafræðingar hafa allt frá árinu 2004 haft þá sérstöðu að þau ein hafa haft heimild til að skrá bókfræðifærslur í bókasafnskerfið Gegni að undangengnu námskeiði til réttinda. Þær upplýsingar bárust frá Landskerfi bókasafna sem sér um rekstur Gegnis fyrir íslensk bókasöfn að rýmka ætti kröfurnar til að fá skráningarheimild. Nýjar kröfur hafa nú verið settar fram í nýrri auglýsingu Landskerfis er varðar skráningarnámskeið.

Stjórn Stéttarfélags bókasafns- og upplýsingafræðinga (SBU) hefur deilt áhyggjum félagsmanna um áætlun Landskerfis að rýmka kröfurnar. Nýjar kröfur eru þó ekki rýmkaðar meira en svo að ljúka þarf námskeiði sem kennt er í upplýsingafræði við Háskóla Íslands sem við teljum jákvætt sem og að viðkomandi þarf að starfa á einu af aðildarsöfnum Gegnis. Stjórn SBU telur þessa þróun þó varhugaverða því fyrir utan þau áhrif sem slík þróun gæti haft á gæði upplýsinganna sem í bókasafnskerfið fara þá getur hún einnig haft áhrif á framboð starfa upplýsingafræðinga í framtíðinni.

Eftirspurn eftir upplýsingafræðingum hefur tekið miklum breytingum í tilteknum störfum innan safna. Í sumum tilfellum er starfsemi safna að breytast og þróast en stundum virðast stjórnendur ekki gera sér grein fyrir þeirri sérfræðiþekkingu sem upplýsingafræðingar búa yfir. Upplýsingafræðingar skipuleggja upplýsingar og greiða almenningi, atvinnulífi, skólum og vísindasamfélagi aðgang að áreiðanlegri þekkingu og afþreyingu, hvort sem er á stafrænu eða áþreifanlegu formi. Yfirsýn yfir þekkingu og miðlun hennar ásamt áðurnefndri skráningarheimild hefur hingað til verið eitt af þeim atriðum sem hvetja stjórnendur til að ráða fagmenntaða upplýsingafræðinga til starfa í sérfræðistörf. Sé skráningarheimildin ekki lengur einskorðuð við einstaklinga menntaða í upplýsingafræði getur það haft neikvæð áhrif á skráningu, meðferð og miðlun upplýsinga til notenda safna og safnkosts sem og áframhaldandi eftirspurn og ekki síður framboð á upplýsingafræðingum til starfa. Stjórn SBU hvetur því til þess að þær forkröfur sem settar eru á skráningarnámskeið Landskerfis verði ekki rýmkaðar frekar en orðið er.