Aðalfundur SBU afstaðinn
Aðalfundur félagsins fór fram í húsakynnum BHM föstudaginn 3. mars
Aðalfundur SBU kom saman á 4. hæð í Borgartúni 6 föstudaginn síðastliðinn. Á fundinum fóru fram hefðbundin aðalfundarstörf félagsins. Skýrsla stjórnar félagsins fyrir liðið starfsár var kynnt og ársreikningar félagsins voru samþykktir. Þá samþykkti aðalfundur ný lög félagsins .

Undir dagskrárliðnum önnur mál lagði stjórn félagsins fram tillögu að samþykkt aðalfundar sem aðalfundur samþykkti samhljóða.
Samþykkt aðalfundar
Stjórn félagsins óskar eftir umboði aðalfundar til að taka upp viðræður við önnur stéttarfélög háskólamenntaðs fólks um stofnun nýs stéttarfélags. Markmið viðræðnanna er að kanna kosti þess að setja á fót nýtt og öflugt stéttarfélag háskólamenntaðra sérfræðinga sem byggir á sterkum og fjölbreyttum grunni ólíkra félaga og er jafnframt í stakk búið til að takast á við áskoranir á vinnumarkaði framtíðarinnar.
Á fundinum fór kjör í stjórn félagsins fram en það voru laus sæti formanns, tvö sæti aðalfulltrúa og eitt sæti varafulltrúa. Kristjana Mjöll Jónsdóttir Hjörvar endurnýjaði umboð sitt til formanns félagsins, þá hlutu Ragna Björk Kristjánsdóttir og Ingibjörg Ösp Óttarsdóttir kjör sem aðalfulltrúar og Sveinn Ólafsson var kosinn varafulltrúi í stjórn félagsins.
Hallfríður Kristjánsdóttir hætti sem varafulltrúi í stjórn félagsins og þá hætti Sveinn Ólafsson sem aðalfulltrúi í stjórn félagsins en Sveinn hefur sinnt trúnaðarstörfum fyrir félagið til fjölda ára. Nýkjörin stjórn og formaður SBU þakka Hallfríði og Sveini fyrir störf sín í þágu félagsins.