Stéttarfélag bókasafns- og upplýsingafræðinga heldur aðalfund sinn föstudaginn 28. mars næstkomandi kl. 16:00 í Ásbrú, 3. hæð Borgartúni 6, Reykjavík.

Fundurinn er opinn öllum sem skráðir eru í félagið. Fundinum verður varpað í fjarfundabúnaði og þarf að skrá sig í fjarfund hér.

Félagsmönnum er bent á að yfirleitt gefst kostur á að sækja fund sem þennan í vinnutíma að höfðu samráði við næsta yfirmann.

Kosið verður um tvö laus sæti í stjórn. Þá leggur núverandi stjórn fram tillögu að lagabreytingu fyrir aðalfund, sjá hér að neðan.

Framboð til stjórnar og tillögur um aðrar lagabreytingar þurfa að berast félaginu fyrir 21. mars næstkomandi.

Að loknum aðalfundi verður boðið upp á léttar veitingar.

 

Dagskrá aðalfundar 2014

1.    Skýrsla stjórnar

2.    Reikningar félagsins

3.    Lagabreytingar

4.    Fjárhagsáætlun fyrir næsta ár

5.    Kosning stjórnarmanns sbr. 5. grein.

6.    Kosning tveggja skoðunarmanna reikninga

7.    Kosning í nefndir og til annarra trúnaðarstarfa innan félagsins

8.    Önnur mál

 

Tillaga að lagabreytingu á 5. gr. laga félagsins. Hún er svona í núverandi lögum:

5. gr. Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum; formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda sem kosnir skulu á aðalfundi. Auk þess skal kjósa einn varamann. Formann skal kjósa sérstaklega. Á fyrsta fundi eftir aðalfund skiptir stjórnin að öðru leyti með sér verkum.

Formaður og varaformaður félagsins sitja í miðstjórn Bandalags háskólamanna – BHM.

Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Annað árið skal kjósa formann og tvo stjórnarmenn en hitt árið tvo stjórnarmenn og varamann. Endurkjör er heimilt en enginn skal þó sitja lengur í stjórn en 3 kjörtímabil samfellt.

Stjórn SBU leggur til að hún verði:

5. gr. Stjórn félagsins

Stjórn félagsins skal skipuð fimm mönnum; formanni, varaformanni, ritara, gjaldkera og meðstjórnanda sem kosnir skulu á aðalfundi. Auk þess skal kjósa einn varamann. Formann skal kjósa sérstaklega. Á fyrsta fundi eftir aðalfund skiptir stjórnin að öðru leyti með sér verkum.

Kjörtímabil stjórnar er tvö ár. Annað árið skal kjósa formann og tvo stjórnarmenn en hitt árið tvo stjórnarmenn og varamann.

 Greinagerð vegna lagabreytingar:

Önnur málsgrein er felld brott, þar sem BHM hefur ekki lengur miðstjórn. Auk þess gilda lög BHM um setu fulltrúa SBU í stjórnum þar. SBU er hluti BHM og lýtur lögum bandalagsins hvað þátttöku þar varðar. Það þarf þess vegna ekki að taka þau mál sérstaklega fram í lögum SBU.

Síðasta málsgreinin er breytt þannig að þar eru ekki lengur takmarkanir á því hversu lengi fólk situr í stjórn félagsins. Það eru ókostir við það að fólk sitji of lengi í stjórnum félaga, en það er líka óhagræði ef fólk situr stutt. Mat stjórnar SBU er að óhagræðið af því að sitja of stutt sé meira. Fólk eykur þekkingu sína á stjórnartíma og öðlast reynslu af samningagerð. Með því fyrirkomulagi sem nú gildir, er fólk sjaldan oftar en einu sinni  eða tvisvar við samningagerð og þetta veikir félagið.